Sýningu Rósu Sigrúnar Jónsdóttur lýkur 
                    nú um helgina. Rósa Sigrún útskrifaðist frá Listaháskóla 
                    Íslands árið 2001, og verið ötul við listsköpun og 
                    sýningarhald síðan. Verk hennar “Um fegurðina” hefur áður 
                    verið sýnt í Luleå í Svíþjóð sumarið 2003 þar sem það vann 
                    til verðlauna. Rætur verksins liggja í vangaveltum um 
                    fegurðina.  
                     
                    Ragna Sigurðardóttir gagnrýnandi Morgunblaðsins skrifar m.a. 
                    um sýninguna: “Verkið sem Rósa sýnir núna í Gallerí Hlemmi 
                    er sannkallaður svanasöngur gallerísins, það er fallegt, 
                    sterkt og eftirminnilegt í einfeldni sinni. Rósa er afar 
                    hæfileikaríkur listamaður og henni tekst að birta okkur 
                    hinum sterka og fallega sýn á hversdagslega hluti. 
                    Eyrnapinnavefnaðurinn er sláandi verk sem situr í manni. Það 
                    minnir á smíð náttúrunnar eins og kóngulóarvef eða 
                    býflugnabú en vísar um leið til neyslusamfélagsins og 
                    fegurðar- og hreinlætisdýrkunar þeirrar sem við búum við. 
                    Þráhyggjan sem birtist í gerð þess og stærð vefsins er 
                    óhugnanleg en um leið er vefurinn fallegur ásýndum. 
                    Myndbandið með útsaumnum í fingurgómana stækkar verkið og 
                    gerir það enn áleitnara.”Í tilefni sýningarinnar og þeim 
                    tímamótum í starfsemi Gallerís Hlemms að loka sýningarsal 
                    sínum í Þverholtinu, þá býður galleríið til lokunarteitis á 
                    laugardaginn n.k. og hvetur alla þá listamenn sem sýnt hafa 
                    í galleríinu, velunnara gallerísins, ráðamenn menningarmála 
                    á Íslandi og alla aðra áhugasama gesti gallerísins til þess 
                    að koma og lyfta kveðjuskál.  |