Það er engin leið frá efninu.

Það er engin leið frá hinu áþreifanlega,

né heldur frá hinu andlega. Robert Smithson, Sculptor.

 

Hildur Bjarnadóttir afmáir mörkin milli áþreifanlegs efnis og hugans, milli hlutar og hugmyndar. Hún vinnur innan ramma síð-hugmyndalistarinnar, þar sem dregin eru í efa hefðbundin skil á milli upphafinnar listar og hversdagslegrar, milli kynferðs og tækni. Með notkun nýrra efna í hefðbundnum útsaum kollvarpar hún hugmyndum um afmörkun listgreina, eins og til dæmis milli teikningar og málunar.

 

Hildi er nánast meðfædd sú list að vinna með þráð; frá því hún var fjögra ára tók hún að læra af móður sinni að próna, hekla og sauma út. Í dag nýtir hún þessar hefðbundnu kvenlegu aðferðir til að gera verk sem eru nákvæm í einfaldleika sínum en þó rík af menningarlegum tengingum. Með tengslum við teikningu og málun notfærir hún sér á frjálslegan hátt hefðbundnar aðferðir nytja- og skreytilistar í íslenskum textíl og endurskapar ný verk með hugmyndafræðilegum styrk og heillandi efnislegum eigindum. Í nýrri röð ofinna verka notar listamaðurinn hárfínt átta punda girni til að útbúa það sem lítur út fyrir að vera klassískur herra vasaklútur úr hör og nokkrar arkir af gegnsæjum línustrikuðum stílabókablöðum sem eru negld beint á veggi sýningarsalarins. Henni tekst að skapa þessum hversdagslegu hlutum stöðu sem gerir þá frábrugðna fyrirmyndunum og með efnisnotkun og aðferð upphefur hún dulræna krafta sem einfaldir hlutir búa yfir og opnar þar með leiðir að nýjum skilningi.

 

Girnisverkin eru í sömu stærð og fyrirmyndirnar. Íslenskir áhorfendur þekkja hins vegar strax verkið sem er eftirlíking taubleyju, í yfirstærð. Það er gert úr fermetra af útsaumshör, með rauðum kanti; þræðir hafa verið dregnir úr efninu og mynda net. Þessi leikur með stærðir og ólík efni eykur nálægð og áhrifamátt verkana og gefur til kynna íronísk tengsl milli hins hefðbundna hlutverks kvenna að gæta barna og nútímalegs listræns nets myndlistarinnar sem hefur fengist með því tímafreka verki að toga þræði úr efninu. Þegar horft er á verkið á veggnum og hugleidd eru tengsl þess við málverkið, sést að listamaðurinn heldur til streitu vitsmunalegum árásum á hinar viðurkenndu hugmyndir um hvað sé „góð” list og setur spurningamerki, ekki bara við formið heldur líka notagildið.

 

Í nýjustu verkum sínum á sýningunni fer Hildur nýjar leiðir í efnisnotkun. Með því að nota ljósmyndir af vönduðum, gömlum handprjónuðum hyrnum og meðhöndlað þær með nýjum myndvinnsluforritum hefur hún gert röð stórra ljósmyndaverka sem draga úr handverkinu í hyrnunum en undirstrika formræna fegurð prjónamynstranna. Á svipaðan hátt og listamaðurinn Mike Kelly frá Los Angeles notar gömul tuskudýr í skúlptúra, sem bera með sér tilfinngalegar vísanir í eitt sinn elskuð, nú yfirgefin leikföng finnur Hildur í þessum gömlu ullarhyrnum skráningu á stolti kvenna í flóknum, persónulegum prjónamunstrum, og einnig sorglega staðreynd nútíma menningar sem ekki lengur metur þessa aðferð og persónulegu sköpunarþörf eigendanna. Með því að vinna þessi hefðbundnu prjónamynstur kvenna á stafrænt form finnur Hildur nýja leið fyrir textíllist þar sem spurt er um mikilvægi handverksins í skipun listaverksins og undirstrikar kjarnann í breytingum á hefðbundnum menningarlegum gildum. Eins og flest hennar verk þá eru ljósmyndaverkin síð-femínísk gagnrýni á viðtekin gildi og ná að varpa skjannabirtu á heiminn eins og við þykumst skilja hann.

 

 

Bruce Guenther

Curator of Modern and Contemporary Art

Portland Art Museum, Oregon.